Frétt

15.06.2016|

Valitor gerir samning um kolefnisjöfnun með þátttöku starfsfólks

Valitor hefur sett sér markmið ásamt 103 öðrum félögum á Íslandi í samræmi við skuldbindingu, sem fylgdi undirskrift Valitor á yfirlýsingu, sem afhent var á Loftslagsráðstefnunni í París í desember 2015. Stórt skref var tekið í vikunni þegar Viðar Þorkelsson, forstjóri Valitor  undirritaði samning um kolefnisjöfnun við Kolvið, þar sem Valitor skuldbindur sig til að kolefnisjafna flugferðir og bílanotkun fyrirtækisins í ár og á komandi árum. 
Valitor reiknar út kolefnislosun út frá tímafjölda í lofti við hverja flugferð og ekna kílómetra fyrirtækjabílanna (þ.m.t. rafbílarnir) og einkabíla starfsmanna. Valitor greiðir svo Kolviðssjóðnum m.v. niðurstöður útreikninganna og kaupir kolefnisbindingu til þess að jafna útblástursmengun ökutækja sinna og vegna flugferða starfsmanna og gesta. Kolefnisbinding er fyrst og fremst framkvæmd með því að gróðursetja varanlega skóga um allt land í umsjón Kolviðar. 

Samningurinn felur í sér að starfsfólk kolefnisjafnar eigin akstur til og frá vinnu. „Starfsfólk sem skrifar undir þennan samning veitir okkur leyfi til að draga af launum þeirra mánaðarlega, eins og einn eldsneytistank á ársgrundvelli og greiðslurnar renna til Kolviðs,“ segir Randver Fleckenstein fræðslustjóri Valitor.

Þetta er í fyrsta skipti sem gerður er álíka samningur hér á landi en vanalega varða slíkir samningar aðeins ferðir á vegum fyrirtækisins. „Viðbrögðin eru jákvæð. Valitor kolefnisjafnar allar flugferðir og ökuferðir á vegum fyrirtækisins en við gerum okkur grein fyrir að fólk vill gera betur,“ segir Randver.

„Með þessu fyrirkomulagi við Kolvið erum við að bjóða þeim starfsmönnum sem hafa ekki möguleika á að vera með samgöngusamning við félagið tækifæri á því að vernda umhverfið. Á þennan hátt getum við verið ábyrgari í okkar umhverfismálum og stuðlað að vitundarvakningu meðal starfsmanna,“ segir Viðar Þorkelsson, forstjóri Valitor.

Næstu skref fyrir okkur eru að skoða heildarmyndina og reikna með aðkeyptum  flutningum, flugfrakt sem og skipaflutninga með aðföngum og fullunnum vörum, t.d. tölvubúnaði og posum.

Á myndinni eru frá vinstri: Randver Fleckenstein, fræðslustjóri Valitor, Viðar Þorkelsson, forstjóri Valitor, Einar Gunnarsson frá Kolviði og Lára Björk Erlingsdóttir, fulltrúi starfsmanna í stýrihópi samfélagsábyrgðar hjá Valitor. Til baka

Þessi síða notar vefkökur (e. cookies) m.a. til að bæta upplifun og greina umferð um vefinn. Nánari upplýsingar um vefkökur.