Frétt

07.03.2012|

Valitor semur um kortaútgáfu í Bretlandi

Útflutningur á sérþekkingu Valitor hefur skapað 25 störf hér á landi

Hugbúnaður, sem sérfræðingar Valitor hafa þróað fyrir íslenskan markað, nýtur vaxandi athygli og eftirspurnar  í Bretlandi. Um er að ræða útgáfukerfi fyrir greiðslukort sem góð reynsla var komin hér á landi og hefur undanfarin tvö ár verið hannað með breyttar þarfir markaðarins í huga, m.a. fyrir nýjustu tækni í vefsamskiptum. Valitor lét reyna á markaðssetningu á hugbúnaðinum á breskum markaði í fyrra í samstarfi við þarlendan aðila og Visa í Evrópu og hafa viðbrögð verið mjög góð.  Um er að ræða útgáfu á fyrirframgreiddum (prepaid) kortum jafnt sýndarkortum sem og hefðbundnum greiðslukortum.

Í vikunni var stórt skref stigið fram á við í markaðssetningu á hugbúnaðinum þegar Valitor og breska fyrirtækið White Eagle Plc undirrituðu samstarfssamning um útgáfu á fyrirframgreiddum kreditkortum fyrir Bretlandsmarkað. Samstarfið tekur bæði til útgáfu á kortum fyrir einstaklinga og fyrirtæki. Áherslubreytingin sem næst með samningnum við White Eagle er sú að nú verður starfsemi Valitor í Bretlandi víðtækari og fjölbreyttari, m.a. vegna þess að við bætist útgáfa á kortum til einstaklinga.

Viðar Þorkelsson forstjóri Valitor: „Það er virkilega ánægjulegt að geta flutt út afrakstur þróunarvinnu okkar starfsmanna sem er af þeim gæðum að hún vekur áhuga og eftirspurn erlendis. Við erum líka stolt af því að útflutningur á sérþekkingu Valitor hefur skapað 25 störf hér heima á síðustu tveimur árum. Við hófum að þreifa fyrir okkur með útflutning á útgáfuhugbúnaðinum til Bretlands á síðasta ári og tilraunin tókst það vel að einsýnt var að halda áfram. Bretlandsmarkaður er mjög áhugaverður fyrir Valitor og við lítum á þennan samning við White Eagle sem ákjósanlegan stökkpall fyrir frekari starfsemi í Evrópu. Valitor og White Eagle deila sömu sýn á framtíðarmöguleika þessa geira. “
Warren Hardy, forstjóri  White Eagle: „Það er stefna okkar að starfa einungis með frumkvöðla-fyrirtækjum sem vilja eins og við færa út landamærin á sviði fyrirframgreiddra korta með framsækni og nýjum  lausnum. Eftir nokkurra mánaða ítarlega leit að heppilegum samstarfsaðila var niðurstaðan sú að Valitor væri hæfast fyrirtækja til að veita þá kraftmiklu þjónustu sem við höfum þörf fyrir.“

Um White Eagle
White Eagle Plc er fyrirtæki sem sérhæfir sig í umsýslu kortaverkefna af ýmsum toga í Evrópu. Má þar helst nefna fyrirframgreidd kort, farsímalausnir og rafræna greiðslumiðlun. Fyrirtækið nýtur alþjóðlegarar viðurkenningar á sínu sviði og er PCI vottað.

Um Valitor
Valitor er framsækið þjónustufyrirtæki á sviði greiðslulausna sem starfar á alþjóðlegum vettvangi og leggur sérstaka áherslu frumkvæði, nýsköpun og traust í starfsemi  sinni. Hlutverk Valitor er að veita  viðskiptavinum sínum örugga og skjóta þjónustu og stuðla þannig að árangursríkum viðskiptum.

    Viðar Þorkelsson, forstjóri Valitor og Warren Hardy forstjóri White Eagle handsala samninginn.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur (e. cookies) m.a. til að bæta upplifun og greina umferð um vefinn. Nánari upplýsingar um vefkökur.