Frétt

31.03.2017|

Kortasvik á netinu og öryggi korthafa

Kortasvik á netinu eru ekki ný af nálinni. Þau hafa aukist á síðustu árum í takti við aukna notkun korthafa sjálfra á netinu. Afar mikilvægt er að korthafar séu meðvitaðir um þær hættur sem geta leynst á netinu.

Undanfarin misseri hefur borið talsvert á svokölluðum vefveiðum (phishing). Slíkar árásir, þar sem þrjótar sigla undir fölsku flaggi til að komast yfir upplýsingar, eru vel þekktar hér á landi. Þær eru aðallega í formi tölvupóstsendinga þar sem reynt er að blekkja viðtakanda póstsins og veiða hann í þá gildru að smella á hlekk eða bregðast við tölvupóstinum með einum að öðrum hætti. Oftar en ekki eru þessir tölvupóstar með vörumerki (logo) þekkts fyrirtækis til að auka á trúverðugleika. Nýlegt dæmi um árás sem þessa eru tölvupóstar, sem líta út fyrir að koma frá Símanum, þar sem viðkomandi er tilkynnt að hann hafi ofgreitt reikning og eigi að fá endurgreitt inn á greiðslukort sitt. Þetta er sígild útgáfa af svindli þar sem viðtakandi póstsins er beðinn um að slá inn allar upplýsingar um kortið sitt. Það er rétt að taka það fram að ekkert alvöru fyrirtæki mundi í raun vinna svona og það eru ýmsar viðvörunarbjöllur sem ættu að hringja í kolli okkar við svona pósta, jafnvel þótt vörumerki þekkts fyrirtækis birtist á skjánum. Í fyrsta lagi eru svona póstar oftast á slakri íslensku og þótt íslenskukunnátta þrjótanna hafi batnað eru samt alltaf einhverjar villur. Í öðru lagi sést strax að maður er ekki á heimasíðu viðkomandi fyrirtækis heldur á síðu sem hefur oft mjög langt og skrýtið nafn.

Aðgát skal höfð
Við viljum hvetja korthafa til að vera alltaf á varðbergi þegar viðskipti með kort eiga sér stað á netinu. Sérstaka aðgát þarf gagnvart tölvupóstum sem maður á ekki von á, þar sem viðtakandi er beðinn um að smella á hlekk eða bregðast við tölvupóstinum með einum eða öðrum hætti. 

Til eru ýmsar leiðir til að auka öryggi sitt á netinu. Eitt af því sem korthafar geta gert er að skrá SMS þjónustu á greiðslukortið. Hægt er að velja um nokkrar mismunandi SMS sendingar í þessari þjónustu og ein þeirra er að fá SMS þegar kort er notað við net- og símgreiðslur. Þessi  þjónusta hefur sannað gildi sitt og komið í veg fyrir að þeir sem eru að misnota kortin á netinu geti hreinlega klárað heimild korthafa á nokkrum mínútum.

Greiðslukort eru í eðli sínu mun öruggari greiðslumiðill en peningar en eins og í öllum öðrum viðskiptum gildir sú gullna regla að hafa alltaf varann á. 

Til baka