Frétt

24.03.2017|

Sko - ráðstefna um vefverslun

 
Fyrirlesarar á ráðstefnunni f.v. Kristján Þór Harðarson, Heiður Hrund Jónsdóttir, Vitaly Friedman, Sigríður Oddsdóttir, Salome Guðmundsdóttir, Petra Dís Magnúsdóttir og Einar Benediktsson. 

Á ráðstefnu Já og Valitor var kynnt ný könnun Gallup um vefverslun Íslendinga, sem sagðir eru meðal þeirra þjóða sem flestir versla á netinu. 

Íslendingar eru á meðal þeirra þjóða þar sem hvað flestir versla á netinu eða 79%. Samkvæmt Eurostat er sambærilegt hlutfall fyrir Bretland 83%, Danmörku 82%, Noreg 78%, Lúxemborg 78%, Svíþjóð 76% og Holland og Þýskaland 74%. 65% svarenda telja að Netverslun þeirra muni aukast og 31% til viðbótar að hún muni haldast óbreytt,“ þetta kom fram í erindi Heiðar Hrundar Jónsdóttur er hún kynnti niðurstöður nýrrar könnunar Gallup á ráðstefnu Já og Valitor um vefverslun sem fram fór í Hörpu í dag. Á fundinum var rætt um þátt vefverslunar í verslun nútímans, tækniframfarir og breytta kauphegðun og vefverslun Íslendinga. Í könnun Gallup kemur einnig fram að Íslendingar leita í meira mæli til erlendra söluaðila en neytendur í nágrannalöndum okkar. Af þeim sem höfðu verslað á netinu höfðu 76% verslað við íslenska söluaðila og 87% höfðu verslað við erlenda söluaðila. „Ýmsar rannsóknir sýna að neytendur í nágrannalöndum okkar versla í meira mæli við innlenda söluaðila og í minna mæli við erlenda heldur en þeir íslensku eru að gera,“ sagði Heiður ennfremur. Einnig kemur fram að þrír af hverjum fjórum hafa leitað sér upplýsinga um vöru á netinu en ákveðið að kaupa hana í verslun á staðnum. 

Aðrir framsögumenn á fundinum voru Vitaly Friedman, ritstjóri Smashing Magazine, Petra Dís Magnúsdóttir vefstjóri IKEA, Einar Ben hjá Tjarnargötunni, Kristján Harðarson framkvæmdastjóri hjá Valitor og  Sigríður Margrét Oddsdóttir forstjóri Já. Fundarstjóri var Salóme Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Icelandic Startups.
 
Vitaly Friedman sagði í erindi sínu að það væri mikilvægt að horfa á allt kaupferlið í netverslunni, frá því að viðskiptavinurinn skoðar vöruna þar til hann kaupir hana, greiðir fyrir hana og fær hana afhenta. „Viðskiptavinurinn þarf að vera ánægður með þessa upplifun svo að hann snúi til baka og versli meira.“  Vitaly fjallaði einnig um tækniþróunina sem tengist kaupferlinu á netinu og nefndi meðal annars að vefverslanir séu komnar með sölugátt í gegnum tölvupóst neytenda einnig væri í  auknum mæli verið að rýna í kauphegðun einstaklinga og safna notendaupplýsingum til að klæðskerasníða upplifun notenda sem nýtist þegar verslað er á ný.

Kristján Harðarson sagði í erindi sínu að Valitor finni fyrir vaxandi áhuga á vefverslun hjá íslenskum fyrirtækjum einkum í ferðaþjónustu. Hann sagði ennfremur að viðskipti á netinu sé að aukast hratt í Evrópu og er Valitor nú með yfir 200 þúsund vefverslanir í viðskiptum og áætlar að í lok árs verði þær um 300 þúsund. Hann sagði ennfremur að tækniþróunin sé í átt að samþættri innleiðingu (omni channel) á hefðbundnum  posa-, vef- og snjalltækjalausnum  til mikillar hagræðingar fyrir kaupmenn. 
Petra Dís Magnúsdóttir greindi frá því að um 9000 Íslendingar skoða vef IKEA daglega og kynna sér vöruna áður en þeir mæta á staðinn til að versla. Í erindi sínu fjallaði hún um þróunina á versluninni á netinu og hvernig IKEA er markvisst að hækka þjónustustigið til að fylgja eftir ört vaxandi verslun á netinu, meðal annars með live chat og þróun í átt að sýndarveruleika í vefverslun.
Sigríður Margrét Oddsdóttir forstjóri Já sagði frá nýrri viðskiptalausn fyrirtækisins, Já takk! í sínu erindi.  „Vefviðskipti eru svo sannarlega á uppleið á Íslandi, í gegnum já.is eru neytendur að versla allt frá miðum á áramótadansleiki, bílaþvottakort, bækur, startkapla, klippingar og hárlitun, pizzur og silkikoddaver sem á að vinna gegn öldrun.“ Sigríður sagði jafnframt að þau vinni náið með fyrirtækjum og þjónustuaðilum í að bæta notendaupplifunina til að koma henni á framfæri til neytenda og að lausnin sé allt í senn markaðs-, sölu- og greiðslumiðlunarlausn.
Einar Ben hjá Tjarnargötunni ræddi um áhrifavalda á samfélagsmiðlum í erindi sínu, „hver áhrifavaldur hefur vissa tengingu við vörumerki og hefur vissan fjölda fylgjanda og getur náð til ákveðins hóps sem að fyrirtækin sjálf geta ekki.“  Hann talaði jafnframt um mikilvægi þess að koma réttu skilaboðunum til skila, „þú þarft að hafa skemmtilega sögu að segja annars er þetta bara áreiti.“

Til baka